Flokkun mynda á ljósmyndavef

Myndasöfnum á vefnum er skipt í 6 flokka:

  • Mannamyndir eru elstu ljósmyndirnar á vefnum, rúmlega 12.000 talsins.
  • Austri geymir ljósmynda- og filmusafn fréttablaðsins Austra. Þar eru rúmlega 26.000 myndir, flestar frá 9. og 10. áratug síðustu aldar.
  • Í flokknum Mannlíf og staðir eru meðal annars myndir sem birtust í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi.
  • UÍA er myndasafn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands með rúmlega 9.000 myndir.
  • Flokkurinn Minni söfn inniheldur ýmis einkasöfn og stakar myndir sem berast.
  • Óþekktar myndir eru að mestu leyti gamlar mannamyndir sem ekki hefur tekist að greina.

Samtals birtast rúmlega 70 þúsund myndir á vefnum.

Leit á ljósmyndavef

Á forsíðu vefsins má velja myndasafn eða setja inn leitarorð til að leita í öllum myndasöfnunum í einu. Leitarorð geta til dæmis verið nöfn einstaklinga, staður eða efnisorð. Þessu næst er smellt á Leita hnappinn og notandi færist á síðu sem birtir niðurstöður úr leitinni. Þar má einnig sjá hversu margar myndir uppfylla leitarskilyrðin í hverju myndasafni fyrir sig. Hægt er að fletta milli myndasafna með því að smella á flipa með nafni viðkomandi myndasafns. Meginreglan er sú að mannanöfn og staðarheiti eru skráð í nefnifalli og efnisorð í nefnifalli fleirtölu.

Þetta er almenn leit þar sem leitað er í öllum leitarbærum texta sem er skráður við myndir á vefnum. Ef slegið er inn nafn, til dæmis Lára Ólafsdóttir, birtast allar myndir þar sem orðin Lára og Ólafsdóttir koma fyrir, óháð því hvort nafnið er í myndatexta eða skráð sem ljósmyndari.

Að nota tvö eða fleiri leitarorð og setja AND (og) á milli þeirra skilar sömu niðurstöðu og ef orðin eru skrifuð hvert á eftir öðru. Samanber dæmið um Láru hér fyrir ofan. Með þessari aðferð koma allar myndir þar leitarorðin koma fyrir og óháð því hvort orðin standa saman í skráningartexta myndanna.

Hægt er að þrengja eða víkka leitina eftir því hvort niðurstaðan á að skila færri eða fleiri myndum við leit.

Gæsalappir þrengja leitina þannig að eingöngu er leitað að þeim orðum sem eru innan gæsalappanna. Þannig skilar „Lára Ólafsdóttir“ eingöngu ljósmyndum þar sem þessi orð standa hlið við hlið í skráningartexta ljósmynda. Að nota gæsalappir skilar því nákvæmari leitarniðurstöðum.

Stjarna * víkkar leitina. Þegar hún er sett við orð finnur leitarvélin ljósmyndir með mismunandi ritháttum leitarorðs. Hentugt er að setja stjörnu við enda hálfskrifaðra orða. Til dæmis er hægt að skrifa Skriðd* og koma þá allar ljósmyndir með orði sem byrjar á Skriðd... (Skriðdal, Skriðdalur, Skriðdals, Skriðdalshreppur o.s.frv.). Með því að nota stjörnuna í þessu dæmi skiptir ending leitarorðsins ekki máli.

OR (eða) á milli leitarorða víkkar leitina og gefur fleiri niðurstöður. Þá skilar leitin öllum ljósmyndum þar sem annað hvort leitarorðið kemur fyrir í skráningartexta myndanna. Leit að orðunum Lára OR Ólafsdóttir skilar því fleiri myndum en ef aðeins væri skrifað Lára Ólafsdóttir.

Mismunandi samsetning leitarorða getur skilað ólíkum leitarniðurstöðum. Því getur verið gagnlegt að nota fleiri en eina aðferð við leit.

Þegar mynd hefur verið opnuð á ljósmyndavefnum er hægt að skoða eftirtaldar upplýsingar (séu þær þekktar og þar sem það á við):

  • Númer ljósmyndar
  • Myndatexti (t.d. nafn og heimili)
  • Efnisorð
  • Staður
  • Ljósmyndari
  • Ljósmyndastofa

Ef smellt er á blámerktu efnisorðin er hægt að fá upp ljósmyndir sem hafa sama efnisorð.

Hægt er að leita eftir nafni ljósmyndara. Í flokknum Mannamyndir er auk þess hægt að sía niðurstöður með því að haka við nafn ljósmyndastofu í dálkinum vinstra megin á síðunni. Þannig er til dæmis hægt að finna ljósmyndir eftir Einar V. Smith á Hjaltastað.

Ljósmyndirnar eru skráðar í hugbúnaðinn FotoStation og birtar á vefnum með FotoWeb.

Allar leiðréttingar og ábendingar sem varða myndirnar og skráningu þeirra eru vel þegnar

Hægt er að koma til okkar ábendingum með því að hafa samband við Héraðskjalasafnið í síma 471 1417 eða skrifa bréf á netfangið magnhildur@heraust.is.