Ljósmyndasafn Austurlands er sérstök deild innan Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Safnið er rekið með framlagi frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Minjasafni Austurlands og Héraðsskjalasafni.
Ljósmyndavefurinn myndir.heraust.is var opnaður í lok maí 2014 með um 55 þúsund myndum. Í maí 2018 er fjöldi mynda á vefnum kominn í rúmlega 70 þúsund.
Megintilgangur vefsins er að gera ljósmyndir og ljósmyndasöfn í eigu Ljósmyndasafnsins aðgengileg almenningi, fræðimönnum og útgefendum. Þar má skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.
Almenningur og starfsfólk safna víða um land hafa aðstoðað okkur við að bera kennsl á myndefnið. Mikilvægt að allir sem kannast við óþekkt fólk, hús eða viðburði á vefnum hafi samband. Leiðréttingar við skráningu mynda eru einnig vel þegnar.
Upphaf vefsins má rekja til sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem stóð yfir árin 2011-2015 með styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi. Verkefnið var unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.
Vefurinn birtir ekki allar ljósmyndir sem eru í eigu Ljósmyndasafns Austurlands en áætlað er að myndir í varðveislu þess séu a.m.k. 80 þúsund. Sífellt bætist við safnið, hvort sem það eru ljósmyndir á pappír, filmum, myndskyggnum eða stafrænu formi. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.
Afritun mynda og opinber birting þeirra er bönnuð án leyfis. Er þá átt við birtingu á prenti, í netmiðlum eða sjónvarpi. Myndir á ljósmyndavefnum eru varðar af höfundalögum nr.73/1972.
© Héraðskjalasafn Austfirðinga. 2018. Allur réttur áskilinn.
Hægt er að kaupa afrit af myndum til einkanota eða fyrir útgáfu. Sjá nánari upplýsingar í gjaldskrá Ljósmyndasafns Austurlands.
Héraðsskjalasafn Austfirðinga - Ljósmyndasafn Austurlands
Laufskógum 1
700 Egilsstöðum
Sími: 471 1417
Netfang: heraust@heraust.is.
Veffang: www.heraust.is